141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er orðið áliðið kvölds og sumir þingmenn eiga börn o.s.frv. Þetta er ekki vandamál hjá mér, ég get staðið vaktina hérna endalaust og þarf ekki að taka tillit til fjölskyldu. En mig langar til að ræða einmitt það hvort ekki sé ráð að fresta umræðunni núna og sjá hvort ekki náist samkomulag í nefndunum. Til dæmis hefur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, sagt að áhyggjur hennar af því að menn rannsaki í biðflokki séu vegna þess að menn kynnu að skaða eða skemma náttúruna. Þá er lítið mál að kippa því í liðinn, þá segjum við bara að það megi rannsaka en það sem rannsakað er skuli gert afturkræft. Þetta er einfalt.

Síðan er greinilegt að ASÍ sem fulltrúi láglaunafólks og launafólks í landinu telur að þetta sé efnahagslegt vandamál, að þetta skaði hag heimilanna. Það er nokkuð sem nefndin þarf að ræða. Ætlum við að skaða hag heimilanna?