141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka beiðni mína og skora á hæstv. forseta að gera hlé á þessum þingfundi. Alvarlegar ásakanir hafa birst frá Alþýðusambandi Íslands og það er einsdæmi, vil ég segja, að við sjáum opinberlega að þessi samtök sem hafa í sínum röðum, eins og kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, yfir 112 þús. félagsmenn séu beinlínis komin í stríð við ríkisstjórnina, opinbert stríð við forustumenn ríkisstjórnarinnar. Kjarasamningar eru í uppnámi og formaður ASÍ segist ætla að slíta öllum tengslum við ríkisstjórn Íslands, m.a. vegna þessa máls hér. Ég held að það sé mjög brýnt fyrir framhald umræðunnar að hlé verði gert á fundinum og þessi nefndarfundur haldinn þar sem hægt sé að kryfja þetta mál (Forseti hringir.) og fá þessa aðila til fundar við nefndirnar. Ella hef ég þær áhyggjur að umræðan hér verði ekki nægilega upplýst inn í kvöldið og nóttina.