141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort það hafi verið vísvitandi áform stjórnarliða í þeim efnum, en þegar við skoðum þessi mál finnst mér augljóst að menn átti sig ekki á heildarsamhenginu, ef menn á annað borð hafa einhvern áhuga á því heildarsamhengi. Það sem við sjáum hins vegar er hin endanlega niðurstaða, ef þetta verður samþykkt, þ.e. annars vegar er verið að ýta í burtu hagkvæmustu, bestu og best rannsökuðu vatnsaflsvirkjununum og hins vegar með áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er líka verið að ýta jarðhitaverkefnum út af borðinu.

Það sem ég held að blasi þá við sé ásetningur stjórnvalda að stöðva framkvæmdir, ljúka þessu núna a.m.k. um langt árabil, öllum þessum framkvæmdum. Og það er veruleikinn sem menn standa frammi fyrir, það eru skilaboðin.

Er ríkisstjórnin þá að huga að einhverjum öðrum orkukostum? Já, það er nefnilega þannig. Ríkisstjórnin er einhuga í einu, þ.e. að standa fyrir olíuleit, leita að nýjum orkukostum sem eru jarðefnaorkukostirnir, sem ég hélt að væri tilhneiging okkar til að fara fremur út úr. Þegar hv. þingmaður nefndi norðausturhornið er óhjákvæmilegt að maður fari svolítið að fabúlera. Er það kannski það sem á að drífa upp iðnaðarframleiðsluna á norðausturhorninu, er það kannski olían? Menn virðast vera komnir svo langt í þeim vangaveltum varðandi olíuna að þar eru menn meira að segja farnir að ráðstafa gróðanum sem þeir ætla að þeir fái út úr olíuleitinni.

Er þetta ekki að verða svolítið skringilegt samhengi? Það má ekki nota endurnýjanlega orkugjafa eins og vatnsaflið, ekki jarðhitann, en hins vegar stefna menn óðfluga að olíuleit fyrir Norður- og Austurlandi, sem ég út af fyrir sig fagna.