141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að framkvæmdir á Bakka séu líklega það mál sem hvað oftast hefur verið lofað hér þingsölum þar sem búið er að lofa því endalaust að þar sé eitthvað að gerast, menn eigi að vera rólegir, þetta sé alveg að koma, góðar fréttir bráðum og allt það. Meðan gerist ekki neitt. Svo sjáum við núna, sem er góð ábending hjá hv. þingmanni, að ekki er gert ráð fyrir neinum fjárframlögum í fjárlögum til að styðja við þá uppbyggingu á innviðunum sem þarf að verða ef raunverulega á að verða einhver uppbygging á því svæði í takti við loforð ríkisstjórnarinnar.

Ég staldra enn við þá mótsögn sem mér sýnist að sé í málflutningi stjórnarliða í rauninni þegar talað er um í nefndarálitinu að nú sé grundvöllur að sátt orðinn til, að nú sé búið að gera leikreglur sem eigi að friða þessi mál um langan tíma. (BJJ: Það er öfugmæli …) Já, það er sannarlega öfugmæli, hv. þingmaður, þegar á sama tíma er algjörlega kristaltært að það eru ekki bara þingmenn stjórnarandstöðunnar heldur líka ákveðnir stjórnarliðar sem hafa sagt að þessi áætlun gangi ekki upp.

Þá veltir maður fyrir sér hvort hægt sé að fara aftur inn í það ferli sem búið er að setja í uppnám, hvort það þurfi ekki annað ferli, nýtt. Og hvort við þurfum ekki að breyta lögunum algjörlega og allri hugsun um það hvernig rammaáætlun verður til og hvernig henni er svo lokið, vegna þess að búið er að rýra það ferli sem hefur verið í vinnslu fram að þessu. Þar af leiðandi hljótum við að velta því fyrir okkur hvort ekki sé mikilvægt um leið og menn taka upp þessa tillögu við fyrsta tækifæri að koma fram með nýjar og betur mótaðar reglur um það (Forseti hringir.) hvernig þessi vinna skuli fara fram.