141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum áfram þetta stóra og mikla mál og verður að segjast alveg eins og er að sú mynd sem við höfum dregið upp af málinu styrktist mjög í dag þegar við sáum yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands og einnig kom hún fram í viðtali sem við heyrðum við forseta ASÍ og í sjónvarpsviðtali þar sem báðir voru mættir, forseti ASÍ og hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Það er alveg ljóst að Alþýðusamband Íslands metur það sem svo að þær breytingar sem gerðar hafa verið á rammaáætlun séu svik við það sem þeim var lofað til að styrkja hér efnahagslífið, efnahagsgrunninn og renna stoðum undir væntanlega kjarasamninga sem eru lausir núna eða sem semja þarf um á næsta ári.

Það vekur mann til umhugsunar um hvort ekki sé mikilvægt að halda þeirri umræðu áfram í það minnsta til að vinna tíma svo hægt sé að funda með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og fara yfir stöðu mála. Ég reikna með því að mikilvægt sé að gera það enda er umræðan engan veginn tæmd þegar við skoðum málið í heild og enn koma fram varnaðarorð. Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé eitt af þeim þingmálum þar sem sífellt koma fram nýjar upplýsingar.

Ég hjó eftir því sem fram kom í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem hann flutti þegar mælt var fyrir málinu. Þar sagði hv. þingmaður að farið væri eftir ákveðnum samfélagslegum og pólitískum áherslum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn meinti með því en ætla að túlka það þannig að það sé að hans mati eðlilegt að ríkisstjórn á hverjum tíma móti stefnu í orkunýtingar- og verndunarmálum ef henni þóknast svo, að menn séu ekki endilega bundnir af þeim tillögum eða sérfræðiráðgjöf sem fram kemur heldur verði að taka tillit til þeirrar pólitísku stefnu sem tekin er á hverjum tíma.

Þarna finnst mér við vera komin á byrjunarreit á miðað við það sem við ætluðum okkur að gera með rammaáætluninni. Við getum líka viðurkennt að það hafi verið mistök að hafa það í lögum um rammaáætlun að framkvæmdarvaldið gæti gert þetta með þessum hætti. Hugsanlega hefði verið betra að vísa málinu beint til þingsins til umræðu, þá hefði sú umræða og vinna í það minnsta farið fram í þinginu en ekki hjá framkvæmdarvaldinu sem hefði síðan að sjálfsögðu fengið niðurstöðu Alþingis til úrvinnslu.

Þar sem þetta er í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til að búa til heildstæða stefnu er svekkelsið enn þá meira vegna þess að þarna ætluðum við að reyna að brjóta blað í sögunni.

Ég mun vonandi ná að ræða síðar umsagnir sem borist hafa um málið. Þar sýnist sitt hverjum, eðlilega, sumir telja of langt gengið í eina átt og aðrir eru á öndverðri skoðun. Það er mikilvægt að hér fari fram heilbrigð og góð umræða um áætlunina. Hún mun að sjálfsögðu fara fram, hvort sem það verður núna fyrir jól eða einhvern tíma á næsta ári þegar tillagan verður kláruð í þinginu. Hér hafa sumir þingmenn heitið því að fái þeir aðstöðu til þess verði áætlunin endurskoðuð. Ég hef skilið þau orð þannig að endurskoðunin lúti ekki síst að þeim augljósu kostum sem nú eru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, t.d. virkjunarkostir í Þjórsá sem eru minna umdeildir (Forseti hringir.) en síðasti valkosturinn þar.