141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að varpa aðeins ljósi á þessa nýju tækni. Í ljósi þess vil ég spyrja hv. þingmann út í skilgreininguna á biðflokknum sem við erum með í dag. Þegar atvinnuveganefnd hitti meðal annars Orkuveituna og við fórum í ferð upp á Hellisheiði bentu þeir til að mynda á þá staði sem eru í rammaáætlun og fannst fullkomlega eðlilegt að þeir væru í bið, til dæmis Innsti-Dalur og fleiri slíkir. Jafnvel fannst þeim koma til greina að óraskað svæði hefði hugsanlega mátt fara í vernd en voru samt að spyrja út í af hverju við settum ekki í nýtingu eða vernd afmarkaðri og skýrari þætti. Þeir voru til dæmis að velta fyrir sér Bitru, meðal annars vegna þeirrar nýju tækni sem fyrirsjáanleg er á næstu árum og áratugum, að hugsanlega væri hægt að nýta orkuna á því svæði án þess að fara inn á það og raska því.

Þá er spurningin hvort ekki hefði verið skynsamlegra að biðflokkurinn væri í raun og veru geymsluflokkur — menn vilja reyndar mjög forðast að viðurkenna eða ræða að hann sé það — og rammaáætlun taki alla kosti til athugunar og þegar þeir eru fullrannsakaðir eigi þeir að fara annaðhvort í vernd eða nýtingarflokk. Spurning hvort það sé ekki einfaldlega skynsamlegra að þeir séu bara hafðir í bið og við treystum komandi kynslóðum til að taka skynsamlegar ákvarðanir á grunni rannsókna og það sem er í rammaáætlun verði flokkað með þeim hætti. Einn og einn kostur fari vissulega í vernd og einn og einn kostur fari vissulega í nýtingu en meginparturinn sé einmitt þarna vegna þess að á næstu árum og áratugum, eins og hv. þingmaður kom inn á, mun tæknin breytast mjög mikið og við getum (Forseti hringir.) hugsanlega nýtt kosti án þess að raska umhverfinu með þeim hætti sem gert er í dag.