141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að þetta sé svolítið áhugaverð umræða af því að í meirihlutaálitinu er verið að vísa til nokkurra þátta sem meiri hlutinn telur að næsta rammaáætlun eða næsti áfangi eigi að snúast um. En þá er þetta ekki tekið með, að endurskoða þurfi þessa flokkun og þá hugsun á bak við flokkana. Ég held að það sé mikilvægt.

Við erum annars vegar í ferli rammaáætlunar að leita eftir sátt í nútímanum, sem sagt í dag. Við erum líka að leita eftir sátt um það eins og menn segja: skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum. Þá hef ég alltaf sagt: En af hverju treystum við þá ekki líka komandi kynslóðum til þess að taka ákvarðanir þegar þar að kemur? Af hverju erum við að taka þessar ákvarðanir núna ef við þurfum ekki á þeim að halda?

Auðvitað, eins og ég sagði áðan, viljum við vernda og nýta eitthvað á hverjum tíma. En af hverju höfum við það ekki eins þröngt og hægt er, og hitt er þá bara undir til skoðunar? Ég get fallist á það hjá hv. þingmanni að hin leiðin væri þá sú að allir flokkar væru undir í hvert sinn og það væri á hverjum tíma rammaáætlunar eða þeirrar verkefnisstjórnar sem væri í gangi að skoða allan pakkann.

Varðandi hinn þáttinn, við viljum auðvitað skapa hagvöxt og við viljum skapa hagvöxt í sem flestum greinum. Í orkugeiranum hvað snertir orkunýtingu höfum við verið mjög framarlega bæði í vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum. Við sjáum mjög jákvæðar fréttir um jarðboranir á Nýja-Sjálandi og þær eru á einhverjum eyjum í Karíbahafinu og ég veit ekki hvað og hvað, hafa verið á Azoreyjum og víðar. Óttast ekki þingmaðurinn að með því að taka svona mikið af vatnsaflsvirkjunum, eins og við höfum talað dálítið mikið um, verðum við á því árabili hugsanlega stopp í þeim geira og þá (Forseti hringir.) missum við forskotið, þekkingu, og verðum eftirbátar annarra þegar kemur að því að við viljum fara að nýta aftur vatnsafl?