141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:18]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég held að mikil hætta sé á því og það er nauðsynlegt að hafa framþróun í þessum málum, jafnt á sviði jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana. Við eigum að taka þessi skref af skynsemi. Ég tel að í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar sé málið nálgast af yfirvegun og reynt er að taka tillit til allra þátta, eins og mögulegra þensluáhrifa á framkvæmdatímanum.

Sú framþróun sem ég fór hérna yfir í sambandi við jarðvarmann sýnir okkur vel hvað þetta breytist í raun á mjög skömmum tíma, að á kannski 25–30 ára tímabili horfum við til algjörlega breytts landslags.

Mér er það ofarlega í huga og í minni þegar ég og hv. þingmaður fórum með atvinnuveganefnd, sem við eigum báðir sæti í, og heimsóttum Hellisheiði og skoðuðum aðstæður víða á Suðurlandi gagnvart virkjunarkostum, að þegar við stóðum við Bitru, sem er sett reyndar í verndarflokk í núverandi rammaáætlun, þar sem vegarstæði er fyrir hendi og línur liggja yfir svæðið þannig að allt rask er komið í raun á svæðinu sem getur orðið, þá horfðum við á sama tíma ofan í mjög fallegan dal sem heitir Þverárdalur, sem er annað jarðhitasvæði og er einmitt hugsað til framtíðarnýtingar og er í biðflokki í dag. Í sjálfu sér þarf ekkert að raska þar með þessari nýju tækni. Við horfum á það að geta verið eingöngu með þetta Bitrusvæði þar sem raskið er allt orðið. Þar getum við byggt stöðvarhús, fellt það reyndar mjög inn í hlíðina þannig að það mun hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt, (Forseti hringir.) og með skáborunum náð einmitt niður í Þverárdal og nýtt það svæði líka.

Ég er algjörlega sammála því að framþróun verður að halda áfram og það er þjóðhagslega stórhættulegt að fara þá leið sem vörðuð er (Forseti hringir.) í þessari rammaáætlun.