141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í beinu framhaldi af andsvörum okkar um Bitru vil ég segja að menn í Hveragerði óttast áhrifin sem orðið hafa að einhverju leyti vegna Hellisheiðarvirkjunar og hugsanlega Nesjavallavirkjunar líka, það er ekki alveg fullrannsakað hvaðan sumt af því kemur. Gerðar hafa verið rannsóknir þar með alls konar nýrri tækni og er ekki algjörlega búið að sýna fram á hvaðan hlutirnir koma.

Ég býst við, frú forseti, að ég fái aðeins meiri tíma en tvær mínútur til að flytja ræðu mína.

(Forseti (ÞBack): Forseti athugar það.)

Ég er ánægður með að bæði hæstv. umhverfisráðherra og formaður umhverfis- og samgöngunefndar séu í salnum. Ég flyt nú ræðu sem ég hef geymt mér að flytja þar til báðar væru viðstaddar. Ég vildi nefnilega spyrja þær báðar. Ég beini spurningu minni einkum til hæstv. ráðherra, annars vegar varðandi þau sjónarmið sem ég hef haft uppi um biðflokk. Ég óttast mjög það sem mjög margir virkjunaraðilar hafa bent á, þ.e. að það að flokka kost í bið þýði að erfiðara sé að fá fjármagn. Kemur hreinlega til greina við afgreiðsluna núna að breyta biðflokknum og búa til nýjan biðflokk, rannsóknarbiðflokk, þar sem menn væru búnir að gefa þá yfirlýsingu að þeir vilji frekari rannsóknir áður en viðkomandi kostur er settur til nýtingar? Það væri mjög áhugavert að heyra hvort menn taka jákvætt í það, annars vegar framkvæmdarvaldið og hins vegar meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar.

Síðan vildi ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í málin í Skaftárhreppi hvað varðar virkjunarsvæðin þar og hvort það sé rétt sem ég hef heyrt frá því sveitarfélagi að gert hafi verið samkomulag um að annars vegar mundi Vatnajökulsþjóðgarður stækka, sem vissulega var gert og mikil var sátt um, það var hluti af sáttaferli í samfélaginu, og hins vegar yrðu fjórir virkjunarkostir settir inn á aðalskipulagið. Ég vil nú ekki segja að verið sé að koma í bakið á heimamönnum en þó er það svo að einhverju leyti varðandi þann kost sem heimamenn horfa hvað mest á, Hólmsárvirkjun neðri. Ég nota tækifærið og lýsi því yfir að sú efri hefði að mínu mati ekki komið til greina þar sem hún raskar mjög fallegu víðerni og vatnasvæði og öðru í þeim dúr, á meðan sú neðri virðist vera með allt öðrum formerkjum þó að vissulega sé hún inni á svæði þar sem ekki eru neinar virkjanir í dag.

Ég vildi líka spyrja hæstv. ráðherra og formann nefndarinnar hvort þessir aðilar hafi ekki brugðist frumkvæðisskyldu sinni þegar í ljós kom að þau gögn sem töpuðust fyrir mannleg mistök hjá verkefnisstjórninni en var síðan bent á að væru öll komin fram, allar skýringar. Í minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins var bent á að mjög jákvæð teikn væru á lofti um „lítil“ umhverfisleg áhrif sem auðvelt væri að koma til móts við, það eru auðvitað alltaf einhver áhrif á umhverfið en þó mjög jákvæð. Hefði ekki átt að rannsaka það hjá ráðherrunum og í nefndinni úr því að ráðherrarnir gerðu það ekki? Hafa menn ekki hreinlega brotið frumkvæðisskyldu sína sem ráðherrar og nefnd í að klára ekki málið?

Það sama gildir að nokkru leyti um Hagavatnsvirkjun vegna þess að þar eru umsagnirnar mjög jákvæðar. Þar er kannski ekki beint frumkvæðisskylda en þar finnst mér mjög merkilegt að menn skuli ekki hafa velt því fyrir sér, það kemur alla vega hvergi fram, að setja þann virkjunarkost einfaldlega í nýtingarflokk vegna þess að menn segja: Jú, við fórum í 12 vikna umsagnarferli, fengum mikið af neikvæðum umsögnum, t.d. varðandi jarðvarmavirkjanirnar á Reykjanesi. Þær eru allar áfram í nýtingarflokki. Við fengum líka þó nokkrar umsagnir um Hagavatnsvirkjun sem allar voru mjög jákvæðar.

Hagavatnsvirkjun er áfram í biðflokki þrátt fyrir að sérfræðingar í iðnaðarráðuneytinu og á orkuskrifstofunni segi, ef ég man rétt, að flest rök hnígi að því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Í öðru sæti er síðan Hólmsárvirkjun neðri við Atley.

Mér finnast þetta vera skýrar spurningar og (Forseti hringir.) ég yrði mjög glaður ef ég fengi svar við þeim í umræðunni.