141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að skýra þann þátt. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég skildi það þannig að menn legðu mikið upp úr því að hér væri unnið á faglegan og lagalega réttan hátt á grundvelli laga nr. 48/2011 og að umsagnarferlið hafi verið til að taka á þeim þáttum sem einhverra hluta vegna hefði ekki verið lýst nægilega vel faglega séð. Og tíminn sem ráðherrarnir höfðu til þess — það var ekki eins og þeir hefðu bara 12 vikur, ég held að ég fari rétt með að málið hafi verið hjá ráðherrunum í átta eða níu mánuði áður en það kom inn í þingið í marslok síðastliðið vor, þá frá júlí eða ágúst. Það var því nægur tími til að láta þá faglegu vinnu fara fram. Í svari frá báðum hæstv. ráðherrum umhverfis og iðnaðar á þeim tíma við fyrirspurn sem ég lagði fram var einmitt sagt að þetta væri ekki formleg ráðherranefnd heldur faglegur samráðshópur, sem m.a. hefði leitað eftir samráði við formenn allra faghópanna. Ég hefði því einmitt haldið að þarna væri tækifæri til að flokka kostina.

Fari virkjunarkostur í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að búið sé að ráðstafa honum og að hann verði nýttur heldur er hægt að ljúka rannsóknum og öðru með skýrum hætti. Virkjunarkostur fer vissulega í nýtingu ef arðsemi, umhverfismat og aðrir þættir reynast jákvæðir. Eins er það með verndina, það er ekki sjálfgefið að búið sé að (Forseti hringir.) friðlýsa eða ganga frá því þó að búið sé að setja kostinn þangað inn, þannig að ef mjög sterk rök hefðu hnigið að því (Forseti hringir.) hefði mér ekki þótt óeðlilegt að gera það en mér finnst mjög óeðlilegt að menn geti ekki tekið þá ákvörðun á faglegum grunni. (Forseti hringir.) Tíminn var nægur og ég held að fagþekkingin (Forseti hringir.) hafi líka verið til staðar.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)