141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Auðvitað er mismunandi mat á því. Ég er á þeirri skoðun, og það eru mjög margir, að það hafi verið bæði tækifæri og fagþekking til að taka faglega ákvörðun og fá niðurstöðu að Hólmsárvirkjun neðri við Atley ætti að fara í nýtingarflokk. Hæstv. ráðherra kom reyndar ekki inn á hvort væntingar hefðu verið um það í samstarfinu þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stækkaður og fjögur virkjunarsvæði voru sett inn á aðalskipulag sveitarfélagsins Skaftárhrepps, að einhver af þessum fjórum kostum mundi fá jákvæða umsögn ef aðstæður mæltu með því, sem raunin er.