141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér eru ofarlega í huga atburðir dagsins í tengslum við þetta mál sem við ræðum hér. Dagurinn byrjaði á því að maður fletti blöðunum og þar sá maður auglýsingu frá Alþýðusambandi Íslands. Eftir því sem leið á daginn urðu viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar hvassari sem endaði raunverulega í því sem fyrrum efnahagsráðherra, Árni Páll Árnason, kallar, með leyfi virðulegs forseta: „Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur.“

Hv. þm. Árni Páll Árnason skrifar þetta í fésbókarfærslu nú í kvöld. Hann fullyrðir jafnframt að stjórnvöld hafi ekki neinu leyti fylgt eftir efnahagsáætlun sem hann hafi í sinni tíð sem ráðherra unnið að með markmiðinu að ná sátt milli allra aðila um grunnmarkmið efnahagsmála. Þeirri áætlun hafi verið kastað fyrir róða og nú sé alls engin formleg stefna í efnahagsmálum landsins.

Þetta eru þung orð hjá fyrrverandi ráðherra og hv. þingmanni sem býður sig fram til formennsku í Samfylkingunni, öðrum stjórnarflokknum.

Mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessum orðum hv. þm. Árna Páls Árnasonar og setja það í samhengi við það sem við sjáum hérna (Forseti hringir.) og sérstaklega í samhengi við auglýsinguna sem við sáum í Fréttablaðinu í morgun frá ASÍ.