141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðasta þáttinn tel ég að fyrstu hugmyndir um virkjanirnar hafi haft veruleg eða allveruleg umhverfisleg áhrif. Ég tel að sú vinna sem m.a. þeir sem börðust gegn virkjununum og sá tími sem settur var í það þá hafi lagað mjög mikið til. Um þessar virkjanir er orðin allveruleg sátt, sérstaklega tvær efri, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun. Auðvitað ekki 100% en það er búið að ná samningum við langflesta landeigendur. Verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur haldið reglulega fundi með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis, líklega tvo á ári sl. þrjú ár, þar sem spurt hefur verið: Hvenær verða virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár boðnar út? Hvenær verða þessi störf til?

Ég hef því miður þurft að svara því á hverjum tíma: Spyrjið hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sitja í meiri hlutanum, þeir stöðva það. Það hefur ekkert breyst, (Forseti hringir.) það verður áfram þannig. En svo ég steli hérna tveim sekúndum þá hef ég lagt til að Urriðafoss verði settur í bið, einfaldlega held (Forseti hringir.) ég að það sé (Forseti hringir.) skynsamlegt.