141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vakti athygli á athyglisverðri frétt rétt í þessu. Eins og ég hefur hann fylgst með atburðarás dagsins, sem hefur auðvitað verið svolítið sérstök og söguleg. Svo notuð séu orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar er um að ræða hrikalegri átök milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Það eru ekki væg orð frá þingmanni ríkisstjórnarflokks. Hv. þingmaður talar um hrikalegri ágreining milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Það er nokkuð sögulegt.

Eins og hv. þingmaður vísað til áðan segir hv. þm. Árni Páll Árnason í skrifum sínum á vefinn í kvöld, með leyfi forseta:

„Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Það leiðir hugann að því sem forseti Alþýðusambands Íslands, sem fór ekki alls fyrir löngu í prófkjör innan Samfylkingarinnar þó að hann drægi sig síðan til baka, segir í fjölmiðlum í dag að Alþýðusambandið ætli ekki að ræða frekar við ríkisstjórnina heldur bíða eftir kosningum. Það eru ansi harkaleg skilaboð og alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórnina.

Hvernig tengist það rammaáætlun? Jú, það tengist rammaáætlun með nánum hætti. Rammaáætlun varðar orkunýtingarkosti meðal annars. Orkunýting er og hefur verið mikilvæg fyrir efnahagslega uppbyggingu í landinu. Nýting orkukosta hefur m.a. verið inni í hagvaxtarspám sem kjarasamningar hafa byggst á. Áætlanir bæði launþega og vinnuveitenda hafa byggst á væntingum um framkvæmdir í landinu, frekari nýtingu orkukosta og uppbyggingu atvinnulífs til að nýta orkuna sem frá því kemur. Ríkisstjórnin velur þá kosti í sambandi við afgreiðslu á rammaáætlun sem líklegir eru til að tefja fyrir allri uppbyggingu á því sviði. Auðvitað mótmælir Alþýðusamband Íslands því vegna þess að það gerir sér grein fyrir að tafir og stöðnun á því sviði kemur beint niður á kjörum félagsmanna Alþýðusambandsins, ekki bara þeirra sem vinna beint við virkjanir og stóriðju, langt frá því. Það kemur við pyngju miklu fleiri launþega í landinu.

Auðvitað eru sjónarmið Samtaka atvinnulífsins af sama tagi og hafa margítrekað komið fram og auðvitað heyrast þær raddir úr öllum áttum. Það er ekki bara einhverjir meinfýsnir þingmenn stjórnarandstöðu sem mótmæla málinu eins og það er búið úr garði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Nei, stærstu hreyfingar launþega og vinnuveitenda í landinu mótmæla harðlega. Sérfræðingar og stofnanir, sem vinna sérstaklega að þessum málum, mótmæla harðlega, eins og vísað hefur verið til. Fólk úti um allt þjóðfélag skilur ekki hvers vegna ríkisstjórn Íslands og sá meiri hluti sem hún styðst við flesta daga hér á þingi, kannski ekki alltaf, en flesta daga, og stuðningsmenn hennar í þinginu velja ekki niðurstöðu eða kosti í málinu sem byggja á faglegu mati og sátt getur náðst um. Þeir velja það að taka slaginn, ekki bara við stjórnarandstöðuna á þingi heldur við launþegahreyfinguna, við Vinnuveitendasamband Íslands og flesta aðra aðila í samfélaginu en náttúruverndarsamtök, sem reyndar hafa mótmælt rammaáætlun á öðrum forsendum. En spurningin sem stendur eftir er: Hvers vegna velur þessi ríkisstjórn alltaf átökin jafnvel (Forseti hringir.) þegar friður er í boði?