141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna og tek undir með hv. þingmanni þegar hann veltir upp þeirri spurningu hvers vegna ríkisstjórnin velji alltaf ófriðinn þegar friður sé í boði.

Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að nýlegar yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands í blöðunum í dag — en Alþýðusamband Íslands er mikil breiðfylking með yfir 110 þús. félagsmenn — fela einmitt í sér það sem búið er að benda á í umræðunum undanfarna daga, að rammaáætlun eins og hún liggur fyrir vinni í rauninni gegn því samkomulagi sem stjórnvöld gerðu við Alþýðusambandið og aðila vinnumarkaðarins. Það styður það sem fjallað hefur verið um og hefur verið vitnað til umsagnar Gamma í því efni, að áætlunin muni kosta um 270 milljarða fyrir þjóðarbúið, að um 5–6 þús. störf tapist og hagvöxtur minnki um 4–6%.

Í dag hefur forseti Alþýðusambandsins verið í sviðsljósinu, m.a. út af rammaáætlun. Hann hefur mætt Steingrími J. Sigfússyni í útvarpi og í sjónvarpi. Við höfum séð að forustumenn ríkisstjórnarinnar senda frá sér yfirlýsingar um málið og ráðast beint að Alþýðusambandinu. Hvað finnst hv. þingmanni um að þessir aðilar skuli vera komnir í opinbert stríð, (Forseti hringir.) m.a. út af því máli?