141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að Alþýðusambandið hefur vissulega komið skoðunum sínum í því efni á framfæri. En ég held, eins og hv. þingmaður kemur inn á í svari sínu, að málið sé komið í mjög alvarlega stöðu. Það er mjög alvarlegt að við horfum upp á að forseti Alþýðusambands Íslands og forustumenn ríkisstjórnarinnar séu komnir í opinbert stríð í ljósvakamiðlum með yfirlýsingum sín á milli, opinbert stríð og að störf ríkisstjórnarinnar skuli hafa miðað að því.

Hvað finnst hv. þingmanni um það sem komið hefur fram í máli ákveðinna stjórnarliða? Komið hefur fram að gert sé ráð fyrir því að þjóðarbúið verði af 270 milljörðum með breytingum á rammaáætlun, að 5–6 þús. störf tapist og að það verði um 4–6% minni hagvöxtur á næstu fjórum árum en ella.

Telur hv. þingmaður að þeir stjórnarliðar sem talað hafa fyrir málinu hafi sýnt fram á það með óyggjandi hætti hvernig brúa eigi það bil? Alþýðusambandið og fleiri vara við breytingunum og segja að engar trúanlegar tillögur bendi til þess að verið sé að brúa þetta bil og þar af leiðandi sé ekki verið að skapa þann grunn sem þurfi til kjarasamninga og annars.

Finnst hv. þingmanni að sá málflutningur sem stjórnarliðar hafa haft uppi sýni að þeir séu að reyna að brúa þetta 270 milljarða (Forseti hringir.) bil og þau 5–6 þús. störf sem hér munu tapast?