141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft efast um að tillagan eins og hún lítur út frá ráðherrunum tveimur, Oddnýju Harðardóttur og Svandísi Svavarsdóttur, nyti meirihlutastuðnings hér á þingi. Ég byggi það á því að margir úr ríkisstjórnarflokkunum hafa lýst efasemdum um veigamikla þætti málsins og segja má að slíkar andmælaraddir hafi heyrst í málinu alveg frá því að það kom upphaflega fram. Við þekkjum sjónarmið hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, sem hún gerir ágætlega grein fyrir í fyrirvörum í nefndaráliti sem víkja í veigamiklum atriðum frá tillögu ráðherranna. Við þekkjum líka sjónarmið hv. formanns atvinnuveganefndar, Kristjáns Möllers, sem hefur í bókun eða fyrirvara getum við kallað það í umsögn atvinnuveganefndar til umhverfis- og samgöngunefndar vegna málsins, gert grein fyrir mjög veigamiklum athugasemdum af sinni hálfu við niðurstöður ráðherranna.

Þessir þingmenn hvor um sig eru ekkert einir um skoðanir sínar innan stjórnarflokkanna og því hefur maður oft velt fyrir sér hvort málið nyti stuðnings. Ég hef hins vegar túlkað orð manna, bæði í þingsal og í þingnefndum, þannig að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vildu gjarnan halda fram sem við getum kallað sérsjónarmiðum sínum en mundu hugsanlega að einhverjum breytingartillögum felldum samt sem áður styðja tillögur ráðherranna. Ég hef staðið í þeirri trú að málið mundi á endanum hljóta samþykki á þeim forsendum.

Ég er farinn að efast núna. Mér finnst andstaðan frá einstökum mönnum, bæði innan Samfylkingar og Vinstri grænna, hafa komið fram sterkar en ég átti von á á þessu stigi í umræðunni (Forseti hringir.) og þess vegna velti ég því aftur fyrir mér hvort málið njóti raunverulega þess stuðnings sem ég taldi fyrir örfáum dögum.