141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir hreinskiptið svar. Jú, vissulega hefur komið upp í kollinn síðustu daga að málið njóti ekki meirihlutastuðnings þingsins. Það er alltaf að sannast betur og betur að fleiri snúa baki við málinu enda kannski ekki nema von. Það er náttúrlega mjög róttæk aðgerð hjá Alþýðusambandi Íslands í dag í Fréttablaðinu að lýsa því yfir að ríkisstjórnin hafi svikið ein átta samningsmarkmið sem ASÍ taldi sig hafa landað með þessari vinstri ríkisstjórn á vordögum 2011.

Ég velti líka fyrir mér í framhaldi af þessu hvílík orka og tími fer í það hjá þingmönnum að reyna að opna augu þessara ágætu hæstv. ráðherra fyrir því að málið sé ekki ásættanlegt og því hafi verið breytt á síðustu stigum þegar það kom inn og birtist okkur þingmönnum í þessari þingsályktunartillögu, eftir að hafa farið í gegnum 13 til 14 ára ferli. Það er því þyngra en tárum taki að þingmenn skuli þurfa að standa hér dag eftir dag, nótt eftir nótt, og ræða þetta mál og svo kemur jafnvel í ljós að ekki er meiri hluti fyrir því á þinginu. Þetta er sóun á mannafla, sóun á peningum, opinberu fé, að þurfa að hafa þinghúsið opið á kvöldin og nóttunni og náttúrlega sóun á orku þingmanna. Í stað þess að við séum að ræða mál sem byggja upp íslenskt samfélag eins og þarf að gera er okkur þingmönnum haldið hér í þinghúsinu til að ræða þetta.

Hvað stuðninginn varðar kemur hann bara í ljós við atkvæðagreiðslu. En þetta er, virðulegi forseti, afar einkennilegt mál og ég tel (Forseti hringir.) það ríkisstjórninni og þinginu ekki til sóma þegar svona mikil gagnrýni kemur fram á mál sem enginn er sáttur við.