141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt annað en að minnast á yfirlýsingar fyrrverandi viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, held ég hafi verið, sem undrast að þeirri efnahagsáætlun sem unnin var í hans tíð í ráðuneytinu hafi ekki verið fylgt. Hann segir þetta í tengslum við gagnrýnina sem komið hefur frá Alþýðusambandi Íslands á störf ríkisstjórnarinnar. Það er algjörlega ljóst að mínu viti að Alþýðusambandið hefur nokkuð til síns máls þegar kemur að efnahagsmálum og þætti rammaáætlunar í því, þ.e. að þeirri áætlun sem gerð var hafi ekki verið fylgt. Rétt er að hafa í huga að sífellt fleiri eru að átta sig á því hversu mikilvægt er að þessi áætlun rýri ekki möguleika okkar til að rétta efnahag þjóðarinnar hraðar við en stjórnvöld ætla sér að gera.

Í nokkuð merkilegri umsögn Orkustofnunar um þessa tillögu kemur fram, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögu verkefnisstjórnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar, en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmuni fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og nýtingu“ o.s.frv.

Orkustofnun segir sem sagt í umsögn sinni að önnur afstaða hefði hugsanlega verið tekin ef málið hefði verið unnið (Forseti hringir.) í öðrum farvegi. En þarna er reynt að ná sátt.