141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á þessu andsvari er rétt að minnast á að það er nú ekki mikill þjóðarsáttarsamningatónn í málunum eins og þau standa eftir daginn í dag. ASÍ, fjöldahreyfingin, lokar beinlínis á eftir ríkisstjórninni og segir: Þið megið eiga ykkur. Þið verðið að gera breytingar, þið hafið svikið alla samninga. Meira að segja ASÍ, en forusta þess hefur oft verið svolítið samfylkingarsinnuð, er búin að gefast upp á ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin fékk í raun uppsagnarbréf frá Alþýðusambandi Íslands í Fréttablaðinu í morgun, það er ekki hægt að orða hlutina á annan hátt. ASÍ ætlar ekki að ræða við ríkisstjórnina um nokkurt einasta mál, það biður eftir næstu kosningum og bíður eftir nýrri ríkisstjórn. Það er sérstaklega merkilegt í ljósi þess hvernig þessi samtök eru, sem dæmi má nefna að yfirlögfræðingur ASÍ er varaþingmaður Samfylkingarinnar og við vitum hvernig forseti ASÍ er tengdur Samfylkingunni. Þetta er því allt farið að brotna innan frá. En nei, þessu er svarað með hrokaskeytum og -sendingum og ljótum munnsöfnuði frá hæstv. ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni svo að annað eins hefur ekki sést. Þetta er náttúrlega ekki nokkur einasta framkoma.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann, Ásbjörn Óttarsson, hvort Sjálfstæðisflokkurinn, komist hann í ríkisstjórn eftir kosningar, muni beita sér fyrir nokkurs konar þjóðarsáttarsamningum og koma til móts við skuldug heimili og fara að byggja upp atvinnulíf að nýju. Síðast en ekki síst vil ég spyrja hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd sem birtist í frumvarpi hans um þessa þingsályktunartillögu að það verði (Forseti hringir.) bakkað og verkefnahópurinn kallaður saman aftur og þingsályktunartillagan verði látin standa (Forseti hringir.) eins og hún kom frá verkefnahópnum.