141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel afar brýnt, hvernig sem næsta ríkisstjórn verður skipuð, að samkomulag náist milli þessara aðila. Ég lít þannig á að verkefnið sé það stórt að allir verði að standa saman. Það er algjört lykilatriði fyrir stjórnvöld, hver sem þau eru, að ná samkomulagi og virða það samstarf sem er við þessa aðila.

Við sjáum hvernig núverandi hæstv. ríkisstjórn hagar sér. Við sjáum hvað gerðist í dag hjá Alþýðusambandi Íslands. Við þekkjum hvernig hefur verið staðið að sjávarútvegsmálunum. Hvert frumvarpið á fætur öðru er lagt fram og sagt: Þetta þarf að keyrast í gegn á einni viku. Síðan kemur einkunnagjöfin og sama frá hverjum hún er, hún setur allt á hliðina.

Stóriðjufyrirtækin gerðu undirritað samkomulag við ríkisstjórnina um fyrir fram greidda skatta. Nú hefur eitt þeirra fyrirtækja boðað að það ætli að fara í mál við ríkissjóð og heimta að þetta verði greitt til baka. Við sjáum hvernig er komið fram við ferðaþjónustuna. Það er boðaður skattur og ekkert samráð haft við hana þó svo að ferðaþjónustufyrirtæki séu búin að selja langt fram í tímann — það vita auðvitað allir sem vilja vita og hafa eitthvert vit að þessi fyrirtæki selja þjónustu sína langt fram í tímann og þau geta ekki brugðist við þessu. Það er því alveg sama hvert er litið, hæstv. ríkisstjórnin er í stríði við allt atvinnulíf í landinu, því miður. Og ef það er þannig náum við engum árangri.

Ég minni bara á að skuldastaða ríkissjóðs og skuldbindingar nemur um 2 þús. milljörðum. Við greiðum 84 milljarða í vexti á næsta ári. Við munum greiða tæpa 400 milljarða í vexti á næstu fjórum árum. Ég tel gríðarlega mikilvægt, sama hvernig ríkisstjórnin verður skipuð eftir næstu kosningar, að samstaða náist á milli allra aðila um hvernig við eigum að koma okkur út úr þessum vandamálum.