141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að í sögulegu samhengi eru þetta mikil tíðindi. Nú er það þannig að forseta ASÍ hefur verið legið það á hálsi allt kjörtímabilið að hafa verið of leiðitamur við ríkisstjórnina sem er fyrsta hreina og tæra vinstri stjórnin á Íslandi. Ætli það sé ekki eini kosturinn við þessa ríkisstjórn að mjög litlar líkur eru á því að þetta gerist aftur. Ágætur sjálfstæðismaður, hv. þm. Árni Johnsen, sagði að það væri mjög gott að fá vinstri stjórn einu sinni á ævinni. Það yrði þá bara til þess að við gætum munað hvernig vinstri stjórnir væru. Þegar langur tími líður hefur fólk sem betur fer tilhneigingu til að gleyma því sem er óþægilegt og þannig er það með vinstri stjórnir. Eftir 20 ár man fólk kannski ekki í smáatriðum hvernig þetta var. En það er Íslendingum svo sannarlega í fersku minni núna hvernig vinstri stjórnir eru enda er þessi ríkisstjórn búin að valda slíkum skaða að mjög erfitt verður að vinna úr honum. Búið er að taka þau verkefni sem þessi ríkisstjórn tók við, búið að fresta þeim og stækka þau og búið að koma í veg fyrir að tækifæri hafi verið nýtt sem svo sannarlega hefðu nýst landi og þjóð.

Þetta er rétt hjá hv. þingmanni, ég tek undir það, að það eru stórmerk tíðindi þegar ASÍ gefst upp á hreinni vinstri stjórn. Þetta er ekki vinstri stjórn með miðflokki, þ.e. Framsóknarflokknum, eins og þær hafa alla jafna verið, þetta er vinstri stjórn sem er hrein alþýðubandalagsstjórn. Báðir Alþýðubandalagsflokkarnir eru við stjórn og ASÍ er búið að gefast upp á þeim. Það eru stórpólitísk tíðindi.