141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:14]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hæstv. ríkisstjórn er að mörgu leyti eins og faraldur, og faraldur er í merkingu Íslendinga slæmt fyrirbrigði. Það er óáran, vandamál, óhamingja, rótleysi og lítill árangur sem fylgir því. Það er barátta við vandamál.

Hæstv. ríkisstjórn á ekki að hafa það hlutverk að vera vandamál. Hún á að vera markviss boðberi framfara og framkvæmda, árangurs og leikgleði. Hvar er það, virðulegi forseti, til hjá hæstv. núverandi ríkisstjórn? Það er erfitt að finna því stað.

Unnið hefur verið að gerð rammaáætlunar um langt árabil. Allan tímann var markmiðið að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá hinum mismunandi sjónarhornum, einkum út frá orkugetu og hagkvæmni viðkomandi kosta, en jafnframt þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélagið, atvinnulíf og byggðaþróun og afleiðingum fyrir náttúrufar og náttúru- og menningarminjar. Hugsunin var með öðrum orðum sú að ákvarðanir um nýtingu virkjunarkosta byggðust á víðtæku mati þar sem tekið væri tillit til fjölbreyttra sjónarmiða með það grundvallarmarkmið í huga að skapa sátt um nýtingu á þessum auðlindum okkar, taka sátt í fangið og sýna fram á það að þó að við hljótum að elska fólkið okkar í landinu mest elskum við einnig landið sjálft og viljum bera virðingu fyrir því og skila því betra en við tökum við því.

Við komumst ekki hjá því að nýta þær auðlindir sem við eigum, það afl sem er í okkar landi. Virkjanirnar fimm á Suðurlandi sem ríkisstjórnin vill setja í biðflokk eru virkjanir sem gæfu 6 þúsund störf á ári, virðulegi forseti. Það er í rauninni mikil guðsgjöf að eiga slíka möguleika, ég tala nú ekki um þegar litlu hærri tala, sjö til átta þúsund Íslendingar hafa flúið landið, flúið til Noregs til að reyna að afla þar lífsviðurværis fyrir sig og sína en eiga ekki kosti á því í sínu eigin landi. Það er mikið alvörumál, virðulegi forseti, og við eigum að hafa manndóm til þess að berjast til þrautar í því að sýna fólkinu okkar ást og virðingu og landinu um leið.

Allt er umbreytanlegt í henni veröld og aldrei er neitt eins frá degi til dags hvernig sem dagurinn dettur af degi. Við hljótum að þurfa að ríma við það í því að skapa atvinnu og frið í landinu til að geta byggt upp samfélag okkar eins og alvörufólk.

Við undirbúning rammaáætlunar var byggt á þeirri hugmynd að áfram yrði haldið í nýtingu orkuauðlinda landsins, en ákvarðanir um nýtingu einstakra svæða tækju ekki bara mið af hagkvæmni og efnahagslegum hagsmunum heldur væri einnig tekið tillit til umhverfisverndarsjónarmiða og margvíslegra félagslegra þátta. Grunnhugmynd rammaáætlunar var því sú að búa til vinnulag og leiðir — verkferla heitir það á fínu embættismannamáli í dag — til að vinna úr þessu og byggja á faglegum sjónarmiðum sem dregið gætu úr miklum deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum. Með því móti væri líka auðveldara fyrir alla viðkomandi aðila, svo sem orkufyrirtæki, sveitarfélög og önnur yfirvöld, að forgangsraða verkefnum og gera áætlanir til lengri tíma.

Að virkja á skynsamlegan hátt í landinu þýðir ekkert annað en það að við erum að vinna að varanlegu framlagi og verðmætasköpun fyrir Ísland inn í framtíðina. Virkjun er eitt, hún gefur möguleikana, hún haggast ekki ef hún er rétt hönnuð og tekið er tillit til aðstæðna, en þeir sem nota orkuna, nota virkjanirnar, koma og fara eins og fólk gerir, álver koma og fara. Þau geta verið í 10, 20, 30 ár, en þau koma og fara. Í framtíðinni koma nýir kostir til að fá ugglaust meiri verðmæti úr orkuauðlindinni í vatnsföllum og gufu alveg eins og það hefur þróast á undanförnum áratugum mikil verðmætaaukning í sjávarútvegi og fiskvinnslu með því að stefna inn á dýrustu markaði með dýrasta og verðmætasta hráefni sem hægt að er að bjóða í þeim efnum á jörðinni.

Þannig eiga kostir okkar að liggja, en það er alveg sama hvað gert er, það þarf alltaf að fórna einhverju. En það kemur þá líka annað í staðinn. Og við það verðum við að lifa eins og aðrar þjóðir ef við ætlum að standa af okkur árásina á sjálfstæði Íslands sem á sér stað í dag með kukli Evrópusambandsins inn í íslenskt þjóðfélag, inn í íslenskt samfélag með til dæmis óhugnanlega ósmekklegum gylliboðum og mútukaupum á alls konar styrkjum þar sem þeir í rauninni koma fram við okkur Íslendinga eins og einhverja aumingja, sem verða að þiggja á gangstéttum ölmusur. Þannig erum við Íslendingar ekki og við þurfum að verjast þeirri þróun hjá hinu 27 þjóða Evrópusambandi, sem er þó fyrst og fremst í eigu tveggja þjóða, Þjóðverja og Frakka.

Allt hefur þetta áhrif á það þegar við þurfum að meta hvað við gerum í virkjunarmálum, uppbyggingu þátta í landinu og hvert við stefnum og hvernig við vinnum það. Það er hörmulegt, virðulegi forseti, að margra ára mjög vönduð vinna verkefnisstjórnar og faghópa var sett ofan í skúffu og í salt og síðan sett í tætara, sett í hálfgerða humarhristivél hjá hæstv. ríkisstjórn.