141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:41]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki óalgengt að menn tali um að æskilegt sé að tala mannamál, fólk skilur það. En það er slæmt þegar ekki er nokkur lifandi leið að skilja þá hugsun sem liggur að baki þeim tillögum, niðurstöðum og þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að fylgja eftir.

Það er skoðun mín að hvort sem það er Holts-, Hvamms- eða Urriðafossvirkjun að þær eigi allar rétt á að fara af stað. Búið er að gera mjög víðtækar rannsóknir af hálfu vísindamanna á öllum þáttum og hæstv. umhverfisráðherra þurfti að brjóta landslög til að tefja verkið hjá Flóahreppi, hjá ákvörðunum réttkjörinna fulltrúa sveitarstjórnar. Með því móti var hægt að tefja og skemma, eyðileggja en ekki stöðva. Menn verða að meta hvað hægt er að ganga langt í því að skemma fyrir framgangi mála, til að mynda hjá litlum sveitarfélögum sem réttkjörin hafa fjallað um verkefnin.

Það er óskiljanlegt hvers vegna sú afstaða er tekin, svo ég svari spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar eins og hægt er. Krafan um rannsóknir er höfuðatriðið í öllum þáttum rammaáætlunar. Krafan um rannsóknir er gríðarlega mikil vörn fyrir þann möguleika að hlutirnir fari úrskeiðis. Hvort sem verkefni er í nýtingarflokki eða ekki er krafan um rannsóknir yfir öllu, hún er vörnin sem við höfum.