141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og góða greiningu á því hvað sé að gerast innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég held að það ósamlyndi og sú ósamstaða sem ríkir innan þessara flokka sé að koma þeim í koll. Vissir hópar styðja stjórnarskrárferlið, aðrir ekki. Vissir hópar styðja rammaáætlun, aðrir ekki. Vissir hópar styðja stórkostlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, aðrir ekki. Við höfum hópa sem styðja ESB-umsókn, aðrir gera það ekki. Við sjáum því að það eru miklu frekar þessi mál sem búa til þau öfl sem starfa á Alþingi og innan ríkisstjórnar en nokkurn tíma það að þetta séu tveir heildstæðir flokkar með sameiginlega stefnu.

Vegna þessarar óstjórnar, sem stafar náttúrlega fyrst og fremst af því að það vantar alla forustu hjá ríkisstjórninni, erum við farin að sjá ótrúlega hluti eins og í morgun þegar dagblöðin voru opnuð var auglýsing frá fjöldahreyfingunni ASÍ með um 110 þús. félaga þar sem hreint og beint er talið upp hvað hefur verið svikið. (Forseti hringir.) Hvað segir þingmaðurinn um þessa greiningu?