141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við sjáum það í auglýsingu Alþýðusambands Íslands, sem er í mörgum liðum, að í það minnsta sambandið, stjórn þess og fulltrúar þessarar stóru hreyfingar yfir 110 þús. Íslendinga telja einmitt að loforðin hafi verið svikin af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við erum vitni að opinberu stríði milli Alþýðusambands Íslands og ríkisstjórnarinnar. Hvernig sjá menn fyrir sér að mögulegt sé að ná einhverri samstöðu á milli þessara aðila á nýjan leik? Er von til þess að hægt verði að ná samkomulagi á milli Alþýðusambands Íslands, aðila vinnumarkaðarins og sitjandi ríkisstjórnar eftir það sem á undan er gengið?

Það er gríðarlega mikilvægt að það náist með einhverjum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt að við missum ekki tökin á stóru málunum. Yfirlýsing Alþýðusambands Íslands er eitt atriði, en viðbrögð forustumanna ríkisstjórnarinnar við þessari yfirlýsingu í dag eru annað og grafalvarlegt mál. Það er grafalvarlegt mál þegar kemur að kjarasamningum á vordögum að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem eru með áratugareynslu í stjórnmálum, skuli bregðast þannig við þessum yfirlýsingum að þeir fara í opinbert yfirlýsingastríð og fjölmiðlastríð við þessa 110 þús. manna hreyfingu, (Forseti hringir.) Alþýðusambands Íslands, í staðinn fyrir að gera það sem forustumenn og forustuöfl í stjórnmálum eiga að gera, þ.e. að leitast við að ná breiðri sátt um hlutina.