141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er alltaf fróðlegt að hlusta á hv. þingmann, hann hefur nú betri innsýn inn í hugarheim vinstri flokkanna og vinstri sinnaðri Alþýðubandalagsflokkinn en flest okkar. (Gripið fram í.) Hann hafði þar skamma viðdvöl og kannaði það mál. Við getum nýtt þann reynslubrunn vel því að það er mjög erfitt að skilja hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega þann hæstv. ráðherra sem mikið hefur verið ræddur hér. Sá ráðherra hefur með — ég ætla ekki að segja lagni en með ákveðnum aðferðum tekist að fara í stríð við eiginlega alla aðila í íslensku samfélagi. Ég held að það hljóti að vera Íslandsmet, ég held að engum hafi tekist það áður að hreinsa rúmlega 1/3 úr þingflokknum sínum á einu kjörtímabili. Það er met sem seint verður slegið, en það hefur hæstv. ráðherra og forustumanni Vinstri grænna tekist að gera.

Ég velti því fyrir mér þegar ég hugsa um það sem átt hefur sér stað hér: Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um það hvernig Vinstri grænir sjá fyrir sér atvinnumál? Hafa Vinstri grænir beitt sér fyrir einhverjum atvinnumálum öðrum en bara IPA-styrkjunum? Ég man ekki eftir neinu öðru, það er held ég … (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað hv. þingmaður kallaði. (Gripið fram í: Listamannalaunin.) Hv. þingmaður kallar: Listamannalaunin. Jú, jú, það er komið tvennt, við erum með IPA-styrkina og listamannalaunin, en það þarf nú eitthvað annað til þess að knýja hlutina áfram. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi einhverja hugmynd um það af því að ég veit ekki um neinn annan til að spyrja: Hvernig sjá Vinstri grænir fyrir sér atvinnumálin? Hvernig á að knýja efnahagslífið áfram í hugarheimi þessa ágæta fólks?