141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að kalla eftir þessum sjónarmiðum í umræðunni að í ljósi þess að þær breytingar sem gerðar eru gera það að verkum að þau störf verða ekki til sem þær framkvæmdir mundu annars skila. Þá þurfum við auðvitað að ræða hvað á þá að gera.

Ég kom inn á ferðaþjónustuna áðan. Það virðist ekki vera mikill skilningur á því að skapa umgjörð svo sú atvinnugrein geti í það minnsta blómstrað og dafnað áfram og það sjáum við líka í mörgum öðrum atvinnugreinum. Almenna umgjörðin fyrir atvinnulífið hefur versnað og erfiðara er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að spretta upp hér í samanburði við það hvernig það er í öðrum löndum. Það hefur gerst mjög hratt á undanförnum árum. Þegar Ísland er komið ofan í 119. sæti í samanburði á umgjörð fyrirtækja, skattumgjörð og öðru, og komið niður fyrir lönd á borð við Mósambík og Haítí og fleiri lönd, af 144 löndum, er ástæða til að hafa áhyggjur, (Forseti hringir.) því að í öllum öðrum samanburði er varðar menntun, heilbrigðiskerfi, tækniþekkingu og annað er Ísland í efstu 15–20 sætunum.