141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur rætt bæði í ræðu sinni áðan og í öðrum ræðum þá stöðu sem upp er komin, sem hefur verið vond en versnar bara. Í stuttu máli sagt var farið í faglegt ferli sem hafði langan aðdraganda og má færa fyrir því rök að farið var í þá vegferð árið 1993 og menn hafa unnið að því samfleytt síðan að byggja upp plagg þar sem unnið var með bestu mögulegar upplýsingar, bestu mögulegu greiningu sem gæti verið grunnur að málefnalegri umræðu um hvað ætti að og nýta og hvað ekki. Við sjáum síðan að hæstv. ríkisstjórn hefur farið í gamaldags, pólitískar aðferðir og er í rauninni búin að kippa grundvellinum undan þeirri faglegu vinnu. Í ofanálag — og það tengist náttúrlega beint — hefur komið í ljós, nokkuð sem menn áttu ekki von á vegna þess að næg eru tilefnin, en núna hefur það gerst hjá þessari tæru vinstri stjórn að Alþýðusamband Íslands sem hefur verið talið — ja, ef eitthvað er, sérstaklega áður, vilhallt vinstri flokkunum — við erum að horfa núna á þá stöðu að verkalýðshreyfingin eins og hún leggur sig hefur sagt: Við getum ekki talað við þessa hreinu, tæru vinstri stjórn lengur.

Við sitjum hérna núna eða sitjum ekki, við stöndum og sitjum klukkan hálftvö í miðjum desember, stutt er til þingloka eða stutt er til jóla getum við sagt, virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er í daglegum samskiptum við stjórnarliða sem þingflokksformaður: Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að vinna úr þessari stöðu? Það er ákall frá Alþýðusambandi Íslands að við þingmenn grípum í taumana, stoppum þá stöðu sem er uppi núna. Hvernig telur hv. þingmaður að við getum unnið úr þessu? Er möguleiki á því að finna einhver þau öfl (Forseti hringir.) innan stjórnarflokkanna sem geta unnið að farsælli lausn þessa máls?