141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst þessi umræða hafa varpað ljósi á ákveðna þætti. Margir þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafa til að mynda ýjað að því að þetta plagg sé því miður ekki það sáttaplagg sem til hafi staðið heldur sé það orðið rammpólitískt og sé orðið stefnuyfirlýsing þeirrar ríkisstjórnar sem er að fara frá. Í því felst að næsta ríkisstjórn muni þá breyta því á fyrsta degi. Ég vildi gjarnan heyra skoðanir hv. þingmanns á því, hvort hann telji líklegt að það gerist.

Ég vildi líka heyra álit þingmannsins á öðru atriði. Á þessum tímapunkti, þar sem málið er statt núna — eftir auglýsingu ASÍ og viðbrögð hæstv. atvinnuvegaráðherra, forsvarsmanns ríkisstjórnarinnar — gætu kjarasamningar þá ekki líka verið upp í loft? Er það kannski að ljúkast upp fyrir æ fleiri mönnum að engin efnahagsstefna er í landinu eins og hv. þm. Árni Páll Árnason segir? Er það þá ekki staðurinn og stundin til að hinkra við, fresta þessari umræðu, setjast niður og reyna að finna farveg fyrir tillögur sem meiri sátt væri um, sem væri þá líklegri til að lifa lengur en fyrsta dag nýrrar ríkisstjórnar?