141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Kristján Möller hafði orðað þetta alveg rétt þegar hann sagði: Rammaáætlun bara mistókst. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spyr: Er þetta ekki rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar? Mun henni ekki verða breytt strax? Jú, þetta er svo sannarlega rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Það þýðir að þetta hefur mistekist. Það er ekki sátt um þetta plagg eins og lagt var upp með. Hins vegar skiptir mjög miklu máli að sú ríkisstjórn sem tekur við, hvernig sem hún lítur út, breyti ekki hugmyndafræðinni. Það skiptir máli að unnið verði út frá faglegum forsendum þannig að menn freistist ekki til þess að segja: Heyrðu, það er komin hefð á það að pólitíkusar garfi í þessu. Það skiptir máli að næsta ríkisstjórn fari ekki þangað heldur haldi sig við það sem lagt var upp með, haldi sig við það sem pólitísk sátt var um meðal allra stjórnmálaafla. Einu gildir hvaða flokkar taka við, þeir mega ekki falla í sömu gryfju. Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður í næstu ríkisstjórn, sem ég vona, má hann aldrei verða eins og Alþýðubandalagsflokkarnir. Ég hvet hv. þingmenn Framsóknarflokksins til að freistast ekki til að fara út í hrossakaupsaðferðir þessara vinstri flokka. Við megum aldrei sjá svona vinnubrögð aftur, aldrei.

Hv. þingmaður vitnar í orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar, um að engin efnahagsstefna sé í landinu, og spyr hvort ekki borgi sig að hinkra við. Auðvitað borgar það sig og ég hvet menn til að staldra við og hugsa. Ef við ætluðum okkur að hafa vinnubrögðin eins slæleg og mögulegt væri, gætum við toppað vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar? Er hægt að toppa það að koma með öll stór mál á elleftu stundu og reyna að keyra þau í gegn í ófriði, stór og smá? Er hægt að gera þetta með verri hætti? Ég held ekki. Ég teldi æskilegt að skynsemisöfl, ef þau eru til, í hv. stjórnarflokkum taki í taumana og fái menn til að hinkra aðeins.