141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara þessari spurningu á tvo vegu. Fyrst: Í sögulegt samhengi eru þetta stórtíðindi. Við þekkjum það að tengsl Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins, í upphafi síns tíma og alltaf, og svo auðvitað Alþýðubandalagsins voru gríðarleg sterk. Það má færa fullgild rök fyrir því þegar Alþýðubandalagsflokkarnir taka við að úr verði óskastjórn ASÍ, í það minnsta forustumanna þess. Það að þeir skuli segja við óskastjórnina sína: Við erum fullkomlega búnir að gefast upp á ykkur! — því að það eru skilaboðin: — Það er ekki hægt að tala við ykkur lengur! — eru stór pólitísk tíðindi. Einhver hefði þótt vera sérkennilegur spámaður sem hefði sagt þetta í upphafi þessa kjörtímabils. Einhver gæti líka sagt, virðulegi forseti, að forusta ASÍ hefði verið seinþreytt til vandræða því að ekki er það nýtt að skriflegir og munnlegir samningar hafi verið sviknir.

Síðan er hinn þáttur svarsins, núið. Sem aldrei fyrr verður að vera traust á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar. Nú erum við að fara í kjarasamninga og í kosningar. Við erum í þeirri efnahagslegu stöðu að aðilar verða að vinna saman, en það er ekkert traust borið til forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hvernig er hægt að vinna með aðilum sem er ekki hægt að treysta? Það er spurningin. Það er ekki skrýtið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þó að forusta ASÍ kalli á okkur þingmenn og segi: Nú verðið þið að gera eitthvað, þetta gengur ekki lengur! — því að það er hlutverk okkar.