141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú er ljóst að margir af okkar vænlegustu virkjunarkostum eru í kjördæmi þingmannsins og þar er mjög kallað eftir frekari atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu. Við vitum hvernig staðan er austur í Skaftárhreppi þar sem er sveitarfélag sem á mjög í vök að verjast og bindur miklar vonir við virkjunarframkvæmdir. Við höfum heyrt þau sjónarmið líka á Suðurlandi, og svo sem víðar af landinu, að orka úr virkjunum, til dæmis í neðri hluta Þjórsár og víðar, eigi að fara til uppbyggingar atvinnulífs á Suðurlandi.

Í ljósi þeirrar rammaáætlunar sem nú liggur fyrir og er hér til umræðu er kannski lítil von gefin fólki á þessu svæði og reyndar víðast hvar um að á þessum vettvangi geti orðið um einhverja atvinnusköpun og verðmætasköpun að ræða. Ríkisstjórnin hefur sett fram sínar hugmyndir sem einhverjir hv. þingmenn hafa kallað nýjar leiðir og nýjar hugmyndir. Hvernig meta Sunnlendingar þetta? Grænn fjárfestingarsjóður, grænkun fyrirtækja og fleiri atriði í þeim dúr, eru þau líkleg til þess að geta komið í staðinn? (Forseti hringir.) Eða ætti þetta ekki í öllu falli að geta gengið ágætlega saman? Hverjar eru væntingar manna til annarrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu?