141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem hv. þingmaður á sæti í atvinnuveganefnd, þeirri fagnefnd sem fjallaði um þetta að minnsta kosti á vorþinginu þó að skipt hafi verið um kúrs á haustþinginu, hef ég kallað eftir ákveðnum hlutum en ekki fengið svör við þeim. Hæstv. ráðherra hefur setið hér undir að minnsta kosti tveimur ræðum þar sem ég hef kallað eftir þeim svörum en ráðherra hefur ekki séð ástæðu til þess að koma og svara þeim.

Það sem ég átta mig ekki á og sem mér finnst vera töluvert ósamræmi í, þ.e. þeim tillögum sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögunni af hálfu hæstv. ráðherra, er það varúðarsjónarmið sem gildir gagnvart vatnsaflsvirkjununum, sem við þekkjum og hv. þingmaður þekkir, og snýr að laxastofnum í Þjórsá. Þegar maður les síðan meirihlutaálitið og þær ábendingar sem þar koma fram um svokölluð álitaefni við orkunýtingu á háhitasvæðum, þar sem meiri hlutinn bendir á að séu auðvitað efasemdir um og áleitnar spurningar, sem snúa meðal annars að mengun grunnvatns, mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.

Nú þekkjum við þau vandamál sem hafa verið uppi hjá Hellisheiðarvirkjun, og þá spyr maður sig líka gagnvart Hverahlíðarvirkjun, svo ég nefni hana í þessu umfangi: Getur hv. þingmaður tekið undir með mér eða er hann ekki sammála mér um það að töluvert ósamræmi sé þarna á milli í tillögu hæstv. ráðherra sem leggja þessa tillögu fram? Að þau varúðarsjónarmið sem gilda um vatnsaflsvirkjanirnar eru mun veigaminni, að mínu mati, en þau atriði sem snúa að virkjun á háhitasvæðum. Getur hv. þingmaður tekið undir það sjónarmið sem ég hef komið á framfæri?