141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað ekki fullyrt um það hvaða sjónarmið ráðherrarnir höfðu algjörlega stuðst við annað en lögin 48/2011, sem voru samþykkt samhljóða og menn hafa bundið sig mjög við að séu fagleg og þess vegna fari menn að því lagalega ferli. Enginn — ég held að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni — trúði því að á grundvelli þeirra laga væri hægt að taka alla þá góðu kosti út varðandi vatnsaflsvirkjanirnar af því að það höfðu verið þannig umsagnir sem hefðu komið í því ferli. Ég fór áðan yfir Hagavatnsvirkjun. Það komu fimm umsagnir, þær voru allar jákvæðar, allar mjög jákvæðar. Ekki var tekið tillit til þess.

Ég ræddi fyrr í kvöld við hæstv. umhverfisráðherra um Hólmsárvirkjun þar sem gögn týndust, gríðarlega öflug rök sem standa á bak við það að sú virkjun hefði verið sett í nýtingarflokk. Það var ekki gert.

Ég held að sú niðurstaða sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar stóð síðan frammi fyrir þegar búið var að taka vatnsaflskostina út og sátu uppi með jarðvarmakostina á Reykjanesi og Hverahlíð á Hellisheiði hafi hugsanlega haft eitthvað með það að gera að menn horfi til þess að varaaflssvæði þurfi fyrir Reykjavík ef eitthvað gerist á Hellisheiði. Ég held að eitthvað hafi verið horft til þess, og að menn voru jafnvel að horfa til einhverra atvinnuskapandi verkefna á Suðurnesjunum þar sem atvinnuleysið er mest, eða ég vona að menn hafi alla vega horft til slíkra þátta.

Mér finnst nefndarálitið lita þetta mjög svörtum litum, ég held að það sé eins konar samviskubit, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kallaði það, þegar menn sáu hverju þeir stóðu frammi fyrir, þegar menn voru búnir að víla og díla með alla þætti, henda hinu út og þetta endaði inni, þá sögðu þeir: Þetta er endapunkturinn, við erum eiginlega mest á móti þessu. Og þá setja menn inn svona (Forseti hringir.) samviskuneikvæða umsögn um að það þurfi að skoða þetta og allt hitt.

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að ekki er jafnvægi í þessu, það er ósamræmi í þessu, þetta er ekki rökrétt og þetta er ekki skynsamlegt.