141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hygg að komin sé upp alveg fordæmalaus staða í samskiptum ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins. Á víxl ganga svika- og lygabrigsl milli ríkisstjórnarinnar og forustu launþegahreyfingarinnar í landinu. ASÍ segir að ríkisstjórnin hafi sett heimsmet í svikum. Forustumenn ASÍ hafa auglýst sérstaklega tiltekna liði sem þeir telja að sviknir hafi verið og svar ríkisstjórnarinnar við þeim ásökunum eru að þau að segja Alþýðusambandið ljúga.

Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu, koma á friði og ró á vinnumarkaði eftir því sem ríkisstjórnin hefur eitthvað fram að færa í þeim efnum, en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu. Því miður hefur allt kjörtímabilið einkennst af brostnum væntingum launafólks, atvinnuveitenda og launþegahreyfingar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svik eru borin upp á ríkisstjórnina. Þetta er bara enn eitt skiptið.

Forusta launþegahreyfingarinnar ASÍ segir að fullreynt sé með samskipti við ríkisstjórnina. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að viðurkenna uppgjöfina, viðurkenna getuleysið, viðurkenna úrræðaleysið sem blasir við öllum? Er ekki kominn tími til að skila lyklunum? Hvers vegna á að halda þjóðinni í þeirri stöðu að þurfa að bíða eftir kosningum fram á vor þegar við öllum blasir hversu mikilvægt það er að friður sé á vinnumarkaði og að fyrir hendi séu nauðsynlegar forsendur þess að hægt sé að endurnýja kjarasamninga og koma á nýju stöðugleika- og vaxtaskeiði? (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn er í engum efnum líkleg til að rísa undir þeim væntingum. Þess vegna blasir sú spurning við, virðulegi forsætisráðherra: Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?