141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ASÍ og vinnuveitenda.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þeir hv. þingmenn frá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki sem hér hafa talað treysta sér ekki til að telja upp þau meintu svik (Gripið fram í.) sem Alþýðusambandið segir að við höfum staðið að. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim átta atriðum, meintu svikum, sem þar koma fram. Túlkun varðandi almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar er mismunandi en ekkert annað.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti staðfest þau svik að við höfum skrifað undir einhverja samninga (Gripið fram í.) um að gengið ætti að vera á ákveðnu stigi eða verðbólgan ætti að vera á ákveðnu stigi þegar kjarasamningum var sagt upp? Nei, það er ekki þannig. Þannig mætti rekja öll atriðin.

Varðandi auðlindaskattinn sem hér var talað um; hvað höfum við nú gert við hann? Við erum að setja á metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem koma mun öllum landsmönnum til góða. Hv. þingmaður nefndi auðlindaskattinn. Skuldastaða heimilanna. Settir hafa verið 50–60 milljarðar kr. í það mál. Hversu mikið hafa lífeyrissjóðirnir sett í það stóra verkefni fyrir heimilin í landinu? (Gripið fram í.) Þeir hafa verið að reyna að koma sér undan því að leggja nokkurt framlag til þess að bæta skuldastöðu heimilanna. Þar höfum við átt í erfiðleikum með lífeyrissjóðina. Það er spurning þegar talað er um svikabrigsl hvort þeir hafi staðið við sinn hlut að því er varðar fjármögnun til skulda heimilanna. Nei, þeir hafa ekki gert það, hv. þingmaður. Og þeir tala um afnám laga um skattlagningu á lífeyrisréttindi fólks á almennum vinnumarkaði. Við erum ekki að skattleggja lífeyrisréttindi fólks á almennum vinnumarkaði.

Þannig má rekja öll atriðin sem talin eru upp af hálfu ASÍ (Forseti hringir.) og sem stjórnarandstaðan nýtir sér nú á lokadögum þingsins í annarlegum tilgangi. (Gripið fram í: Nei …) Þeir vita innst inni (Forseti hringir.) að það stendur ekki steinn yfir steini í því sem ASÍ setti fram (Forseti hringir.) í auglýsingum sínum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)