141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ASÍ og vinnuveitenda.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvað forsætisráðherra hefur beðið ASÍ um að leggja í púkkið í endurreisninni. Vildi hæstv. forsætisráðherra fá helming af aðildargjöldum félagsmanna? Hvað er það sem ASÍ á að leggja til? Ég reikna með því að hæstv. ráðherra sé að tala um aðild ASÍ að lífeyrissjóðunum. Það hlýtur að vera það sem ráðherrann á við, en skilja mátti orð ráðherra þannig að ASÍ ætti að koma með beint framlag inn í endurreisnina. Það er alveg furðulegt að halda slíku fram.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að Alþýðusamband Íslands telur að svik ríkisstjórnarinnar er varða það þingmál sem ég fjallaði um áðan séu svo alvarleg að sambandið hyggst fara í mál, hyggst draga ríkisstjórnina og ríkisvaldið fyrir dómstóla til að fá hnekkt þeirri ósvífni sem þeir telja ríkisstjórnina hafa sýnt þar.

Kjarni málsins, það sem er alvarlegast í þessu öllu saman, er að allt traust og allur trúnaður milli ríkisstjórnarinnar, milli aðila vinnumarkaðarins og milli þjóðarinnar er löngu brostið. (Forseti hringir.) Þess vegna ætti hæstv. forsætisráðherra að taka Hermann heitinn Jónasson sér til fyrirmyndar.