141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

beiðni nefndarmanna um gögn um fjárlög.

[10:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í 51. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

„Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarinnar þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar.“

Eftir mikla eftirgangssemi í fjárlaganefnd tók fjórðungur nefndarinnar það til bragðs að krefjast þess að beita þessu ákvæði og 6. nóvember var þess krafist að fjármálaráðherra legði fram gögn sem nefndin taldi sig þurfa til að sinna hlutverki sínu við gerð fjáraukalaga. 35 dögum síðar, 10. desember, barst svar frá hæstv. fjármálaráðherra. Efni þess svars var með þeim hætti að þar sem afgreiðslu málsins hefði lokið 19. nóvember, sex dögum eftir að hæstv. ráðherra átti að skrifa og skila okkur gögnum, kæmi fjárlaganefnd málið ekki lengur við.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig í ósköpunum standi á því að ráðherra láti hafa sig út í slíka ósvinnu þegar hún vinnur að framgangi mála sem borin eru upp á grundvelli laga.