141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

húsnæðismál á Austurlandi.

[10:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýlega var í fréttum sagt frá alvarlegum rakaskemmdum í 50 nýjum húsum á Miðausturlandi. Í ljós hefur komið að rangt efni hefur verið notað í loftklæðningar. Málið er afar flókið vegna þess að það heyrir undir marga aðila, mörg ráðuneyti og að sjálfsögðu sveitarfélögin líka, þannig að mig langar að velja hæstv. velferðarráðherra til að ræða við. Málið getur tengst Íbúðalánasjóði og það er að sjálfsögðu heilbrigðismál vegna þess að komið hefur í ljós að þessar rakaskemmdir geta valdið viðkvæmu fólki alvarlegum heilsubresti þannig að það er eðlilegt að velferðarráðherra sem er yfirmaður heilbrigðismála hugi að minnsta kosti að því.

Staðan er sú að þetta hefur valdið verulegum vandræðum á þessum stöðum. Þar er ekki mikið um laust íbúðarhúsnæði og því er mjög erfitt að vinna að endurbótum og setja húsin í það horf sem þau þyrftu að vera, en verktakinn hefur verið að vinna í því máli, þegar búið er í þeim. Einmitt á þeim stöðum þar sem þessi hús eru á Íbúðalánasjóður mikið af húsnæði sem stendur autt og mig langar að velta því upp við hæstv. velferðarráðherra hvort ekki gæti komið til greina, í samvinnu við sveitarfélögin, Íbúðalánasjóð og þessa verktaka, að bjóða íbúum að flytja inn í auðar íbúðir tímabundið meðan verið er að gera við húsin þeirra og koma þeim í það stand sem þau þurfa að vera. Það má að sjálfsögðu skoða möguleika eins og þann að verktakarnir greiddu fyrir. Ég heyri að á þessum stöðum er þessi umræða talsvert uppi og mig langar (Forseti hringir.) að heyra sjónarmið ráðherra.