141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

húsnæðismál á Austurlandi.

[10:58]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það, ég held að það þurfi að taka þetta mál upp í heild og skoða það einmitt út frá þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. ábyrgð verktakanna sem hafa fyrst og fremst þá ábyrgð að fylgja lögum og reglugerðum, eftirliti með því og tryggingum. Af hverju stafa þessi undanþáguákvæði? Hver á að tryggja viðkomandi aðila? Hvað gerist ef verktaki er kominn í gjaldþrot eða fyrirtækið er hætt? Hvernig getum við þá tryggt að þeir sem eru fórnarlömb rangra vinnubragða fái úrbætur?

Hinn þátturinn er þekkingin. Ég held að þekking á þeim sjúkdómum sem geta leitt af myglusveppum hafi aukist mjög mikið. Stofnuð hafa verið félög sem hafa fylgt því eftir og vakið athygli á því. Ég held að það sé alveg óyggjandi að margir hafa veikst og verið í vandræðum og líðanin tengist beint ástandi húsa. Ég treysti nú á að sá þáttur sé fyrir hendi en það þarf að fara heildstætt yfir þetta mál. Við höfum ekki litið svo á að það sé velferðarmál nema sá þáttur er varðar heilbrigðiskerfið, hitt sé meira og minna regluverk annars vegar í umhverfisráðuneytinu í tengslum við byggingarreglugerðir (Forseti hringir.) og annað slíkt og hins vegar hjá þeim sem fara með tryggingamál. En það er sjálfsagt að reyna að koma því þannig fyrir að allir aðilar setjist að borðinu og skoði það.