141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ráðherra um makríldeiluna.

[10:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Í gær birtist viðtal við hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra Steingrím J. Sigfússon á cnn.com þar sem hann er spurður meðal annars út í stöðuna í makríldeilunni og áhrifin á aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Í frétt mbl.is af þessu er haft eftir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þessum viðræðum hefur seinkað, hugsanlega vegna deilna líkt og um makrílinn. Það verður sífellt erfiðara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og það segir sig sjálft að refsiaðgerðir og annað slíkt getur skaðað mjög andrúmsloftið.“

Einnig er haft eftir Steingrími að deilan hafi kallað fram efasemdir um það hvort Íslendingar vildu ganga í Evrópusambandið eða ekki

Í fyrsta lagi finnst mér orðalagið „sífellt erfiðara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist“ lýsa ákveðinni firringu gagnvart þessu verkefni. Um það snýst fyrsta spurningin til hæstv. utanríkisráðherra: Er ekki kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn horfist í augu við staðreyndir í þessu aðildarferli?

Þessi ummæli hæstv. ráðherra lýsa vel stöðunni innan annars stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Þau koma í kjölfar ummæla hæstv. menntamálaráðherra, varaformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í haust og hæstv. umhverfisráðherra og nýlegra ummæla hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, sem viðraði það að gera hlé á viðræðunum í útvarpsviðtali ekki alls fyrir löngu.

Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að horfast í augu við staðreyndir. Við göngum sem betur fer til kosninga eftir ekki svo langan tíma. Er ekki ráð, allra vegna, (Forseti hringir.) líka þeirra sem vilja ganga í þetta samband, að gefa íslensku þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn og kjósa um það í komandi alþingiskosningum (Forseti hringir.) hvort þessu umsóknarferli skuli haldið áfram eða ekki?