141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

ummæli ráðherra um makríldeiluna.

[11:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er sammála hæstv. atvinnuvegaráðherra um að ekki sé hægt að láta sem ekkert sé. Við horfumst í augu við það að makríldeilan harðnar og það er einmitt þess vegna sem helmingurinn af starfi utanríkisráðuneytisins síðustu mánuði hefur miðað að því að reyna að nudda og sverfa niður þær fyrirhuguðu eða boðuðu viðskiptaþvinganir sem hafa komið frá Evrópusambandinu, sér í lagi sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins. Ef hv. þingmaður vill horfast í augu við staðreyndirnar sér hún til dæmis að þetta hefur leitt til þess, fyrir atbeina íslenskra stjórnmálamanna og framkvæmdarvaldsins, að það er búið að nudda burt verstu agnúunum, verstu tillögunum sem þar voru. Líkurnar á viðskiptaþvingunum núna eru minni en áður. Hitt er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ef til þeirra kemur þurfa menn auðvitað að meta stöðuna og sér í lagi ef um er að ræða aðgerðir sem eru eitthvað í líkingu við það sem til dæmis gengur af munni makrílþingmannanna frá Skotlandi og Írlandi. Það liggur alveg fyrir. Íslendingar láta ekki berja sig (Forseti hringir.) þó að slík hafi verið háttsemin í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem lét útlendinga berja sig hér hvað (Gripið fram í.) eftir annað. (Gripið fram í: Bla bla bla.) (Forseti hringir.) Já, við skulum þá bara rifja upp hverjir það voru sem sögðu við þá sem vildu senda hingað (Forseti hringir.) flugvélar til að vernda okkur að við kysstum ekki á svipu kvalara okkar. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem (Forseti hringir.) lá hundflatur fyrir Bretum þá, Samfylkingin tók (Forseti hringir.) upp hanskann fyrir Íslendinga.