141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji líklegt að hér verði einhver breyting á með tilliti til umræðunnar um rammaáætlun og afstöðu meiri hlutans og stjórnvalda eins og við höfum heyrt hana koma fram í yfirlýsingum hæstv. ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar, Steingríms J. Sigfússonar í gær í viðtölum í Kastljósi og Speglinum og í yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur áðan og reyndar líka með tilliti til viðbragða stjórnarþingmanna úr meiri hluta samgöngunefndar sem hafa komið hingað upp í umræðunni síðustu daga.

Ég hef vitnað til þess að verkalýðshreyfingin á Suðurlandi hefur á síðustu þremur árum ítrekað haldið fundi með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis þar sem fulltrúar hennar hafa einfaldlega spurt: Hvenær verða virkjunarkostirnir í neðri hluta Þjórsár boðnir út? Hvenær fer sú atvinnustarfsemi af stað sem tengist því? Hvenær verður sú verðmætasköpun að veruleika og forsenda vaxandi hagvaxtar þannig að hægt sé að standa undir velferðarkerfinu, greiðslum í sjóði til öryrkja, eldri borgara og atvinnulausra?

Það hefur alltaf verið sagt: Við skulum bíða eftir rammaáætlun. Nú er rammaáætlun komin hingað. Það er væntanlega ástæða þess að forusta ASÍ hefur gripið til svo harkalegra aðgerða sem raun ber vitni gagnvart ríkisstjórninni. En finnst þingmanninum líklegt að hér verði breyting á eða heldur þetta stefnuleysi áfram? Eins og þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni er talað um að forsendur hagvaxtar séu þetta og forsendur fjárlaga séu hitt og hér á allt að fara að gerast en þegar til kastanna kemur, þegar rætt er um einstaka stefnu, á ekkert að gera heldur halda öllu í stöðnun.