141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn sem er við völd í landinu hafi tekið við á erfiðum tímum og við erfiðar aðstæður hafa tækifærin verið fyrir hendi í íslensku samfélagi. Um það eru allir sem um þau mál fjalla sammála.

Ég vil vitna sérstaklega til fjárfestingarsviðs Íslandsstofu en hjá því hefur komið fram að á missirunum og árunum eftir hrun var mikill áhugi erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á Íslandi, mikill áhugi, aldrei verið meiri. Það hefur einnig komið fram hjá fulltrúum utanríkisráðuneytisins sem hafa fjallað um þessi mál. Hér voru öll tækifæri til að greiða leið.

Vandamál okkar, þjóðarinnar og okkar í þinginu, liggur í óeiningunni innan ríkisstjórnarflokkanna. Það hefur verið fyrirsjáanlegt um langan tíma að þessi ríkisstjórn er ekki til þess bær að ná þeirri samstöðu sem þarf til að stíga næstu skref í mikilvægustu málum okkar. Ríkisstjórnin hefur stuðlað að óvissu og miklum óróa í grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar, sjávarútvegsmálum og orkufrekum iðnaði, með þeim afleiðingum að fjárfestingar fara ekki af stað. Ósamstaðan er svo mikil innan ríkisstjórnarflokkanna að það er engin von til þess að við munum sjá einhvern árangur af störfum þeirra. Sú fjárfestingaráætlun sem kynnt var með flugeldasýningu á vormánuðum og síðan endurtekin nú í haust er hvorki fugl né fiskur og byggist reyndar á því að koma öðrum grundvallaratvinnugreinum okkar á vonarvöl. Við sjáum það endurspeglast núna í afkomu og erfiðleikum innan sjávarútvegsins. Þetta er hræðilegt ástand, virðulegi forseti. Ég hef oft minnt á það úr ræðustól þingsins (Forseti hringir.) hversu mikil ábyrgð þingmanna er. Þetta getur ekki gengið svona áfram.