141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma að málinu um Hólmsárvirkjun, þ.e. neðri virkjunina. Í rammaáætluninni var líka skoðaður annar kostur, efri kostur við Einhyrning, sem hefur umtalsvert meiri umhverfisleg áhrif á ósnortin víðerni og einnig á vatnasvið á svæðinu þannig að menn féllu frá þeim kosti að eigin frumkvæði og settu meiri þunga á þennan. Þess vegna var það mjög dapurlegt að fyrir einhver mannleg mistök hefðu þau rök sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir þar sem öllu hefur verið svarað — og því til viðbótar var ágreiningur um línulögn, hvar línan ætti að liggja. Það eru rúmir 30 km í byggðalínuna, suðausturlínuna, þannig að það er augljóslega alveg vandræðalaust, enda kemur það allt fram í áðurnefndu minnisblaði frá orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins.

Ég átti samtal við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi þar sem ég spurði af hverju þessi gögn hefðu ekki verið tekin til skoðunar og hvar frumkvæðisskylda stjórnvalda væri. Nú hefur hv. þingmaður verið ráðherra og þekkir því þessi vinnubrögð. Telur hv. þingmaður að hér sé einhver brotalöm eða jafnvel að brotið hafi verið á frumkvæðisskyldu stjórnvalda þegar gögnin lágu fyrir, sem þau gerðu svo sannarlega?

Í lokaniðurstöðu orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins segir einfaldlega um þennan virkjunarkost að komið hafi fram upplýsingar sem sýni fram á að ekki sé ástæða til að ætla að það sé nein óvissa og því séu næg rök til að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk þar sem fullnægjandi upplýsingar séu til staðar? En ráðherrarnir gerðu ekkert.