141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað kjarni málsins. Það sem gerðist var að hæstv. ráðherrar brugðust trausti Alþingis. Alþingi ákvað samhljóða að búa til það sem ég hef kallað stoppistöð þar sem hæstv. ráðherrar gátu farið yfir málið. Hvers vegna var það? Ekki til að leggja eitthvert pólitískt mat á málið heldur pólitískt mat sem byggðist á efnislegum forsendum.

Það sem blasir hins vegar algjörlega við og er eins og opin bók þegar maður skoðar málið er að hæstv. ráðherrar skoðuðu þessi mál ekki efnislega. Ef þeir skoðuðu þau gerðu þeir ekkert með niðurstöðurnar. Þess vegna voru þetta fordómar, búið var að dæma þetta fyrir fram. Það er fordómafull aðferð við að leggja fram tillöguna og dregur auðvitað algjörlega úr trúverðugleikanum.

Ég ítreka: Segjum að það hafi verið efnisleg rök fyrir því sem hæstv. ráðherrar voru að gera með því að færa úr nýtingarflokki í biðflokk. Ég er að vísu algjörlega ósammála því, en gefum okkur það samt sem áður svona fyrir umræðuna. Þá hljótum við að gera nákvæmlega sömu kröfur til þeirra virkjunarkosta sem gátu mögulega farið í hina áttina. En það var auðvitað bara ætlunin að fækka í nýtingarflokknum. Það var hin pólitíska meining, stefnumörkunin, „dírektívið“ sem kom úr flokksskrifstofunum, að gera þetta með þeim hætti.

Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að vinnubrögðin séu svona. Og hvað línulögnina áhrærir er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, hún lá líka fyrir, 30 km í Sigöldulínu. Það er athyglisvert, eins og hv. þingmaður fór yfir, að það er svo ríkur vilji virkjunaraðila til að draga úr umhverfisáhrifunum af því að þeir sjá það í hendi sér að það er líklegast til að ná árangri og til að geta farið í virkjanirnar. Ég ætla að koma betur að því í síðara andsvari mínu.