141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:39]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Mig langar til að byrja á því, með leyfi forseta, að vitna hér í blogg Guðmundar Harðar Guðmundssonar þar sem hann segir:

„Stríðsmenn stóriðjustefnunnar unnu orrustuna um rammaáætlun.“

„Þeir fengu Mývatn, nær öll jarðhitasvæði Norðausturlands, Reykjanesskagann eins og hann leggur sig og þeir þurfa ekki að bíða nema í ár eftir að fá að virkja neðri hluta Þjórsár.“

Ég ætla líka að leyfa mér að vitna í annan Guðmund, Guðmund Pál Ólafsson heitinn, sem sendi athugasemdir við 2. áfanga rammaáætlunar eins og fjöldi annarra landsmanna. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Virkjunarkostir eiga að vera afgangsstærð og þeir væru það ef aðferðafræði rammaáætlunar væri þroskuð og samfélagslega heilbrigð.“

Hann heldur áfram, talar um þann veruleika sem við blasir í 2. áfanga rammaáætlunar og segir:

„… orkukostir nýtingarflokks í öðrum áfanga rammaáætlunar [eru] gerræðislegir svo vægt sé til orða tekið. Verulegar upplýsingar skortir, aðferðafræðin er ákaflega broguð og jafnvel ónýt þegar litið er til samfélagslegra og hagrænna þátta; úttektir standast ekki lágmarkskröfur um sjálfbærni. Og að ætla sér að velja af skynsemi og visku orkukosti til framtíðar með aðferð sem er sumpart í lagi og að sumu leyti ónýt — er einfaldlega ónýt aðferð, ekki boðleg.“

Hann spyr:

„Er okkur Íslendingum fyrirmunað að vinna vel, vanda til verka þegar náttúruauðæfi eru annars vegar?“

Hann segir áfram, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir allt sem á undan er sagt hefur rammaáætlun möguleika til að verða mikilvæg aðferðafræði en til þess þarf mun lengri meðgöngutíma fyrir alla hópa og vandaðri vinnubrögð í flestum hópum. Langtímamatsferli er nauðsynlegt vegna þess að við höfum ekki enn þá unnið heimavinnuna okkar í úttekt á íslenskri náttúru en til þessa hefur mestöll úttektin verið unnin í skugga virkjana, hamagangs og tímaskorts.“

Hann spyr hvers vegna tugir virkjunarhugmynda og landsvæða hafi verið metin en ekki bara nokkrir, því að það sé það sem þurfi ef fólk ætli raunverulega að vanda sig, þetta sé langtímaverkefni. Ég gæti vitnað í ótal umsagnir sem hafa borist í þessu ferli áður en ráðherrarnir lögðu hér fram þingsályktunartillöguna, löngu áður, og líka eftir að hún kom inn í þing og lýst þar ákalli fólks um allt land að gera þessa rammaáætlun náttúruvænni þannig að hún standi raunverulega undir sér.

Þurfum við frekari upplýsingar? Þarf ég sem náttúruverndarsinni frekari upplýsingar um Skjálfandafljót? Nei. Ætlar einhver hér inni að voga sér að eiga við Aldeyjarfoss, einhvern fegursta foss landsins, eða Goðafoss? Þetta er í bið. Af hverju er þetta ekki í vernd?

Hvað með Búðartunguvirkjun, Hvítá í Árnessýslu, sem skerðir vatnsrennslið í Gullfoss? Af hverju er þetta í bið? Af hverju er þetta ekki í vernd? Ég spyr. Af hverju eru jökulsárnar í Skagafirði ekki í vernd?

Hvers vegna er ég að segja þetta? Hvers vegna spyr ég þessara spurninga? Vegna þess að í þessari umræðu er talað eins og í þessari rammaáætlun, 2. áfanga, hafi náttúruverndarfólk og umhverfissinnar, jafnvel umhverfisöfgasinnar, unnið einhvern stórkostlegan sigur. Svo er ekki.

Það er okkur mörgum hverjum erfitt að standa að þessari áætlun en við metum það samt svo að þessi vinna sé til góðs og að hún eigi að halda áfram. Ef náttúruvernd hefði þann sess hér sem hún ætti skilið og á skilið til langs tíma væri Reykjanesskaginn ekki í biðflokki, hann væri í vernd. Sveifluháls, Sandfell sunnan Keilis, ótrúlega verðmæt svæði eins og umsögn Náttúrufræðistofnunar bendir á, þar sem jarðvísindamenn hvaðanæva í heiminum koma, þar sem er einstakt á heimsvísu, þar sem ferðaþjónustan biður okkur með ákalli um að setja þetta svæði í vernd, ekki í bið, í vernd, vegna þess að þetta sé ótrúlega gjöfult svæði þegar litið sé til framtíðar.

Við getum nefnt mörg önnur dæmi. Þessi svæði í Reykjanesfólkvangi, sem var stofnaður 1975 af framsýnu fólki, eru ekki í bið, þau eru ekki í vernd eins og þau ættu að vera, þau eru í nýtingarflokki. En hér talar fólk eins og öfgamenn hafi tekið völdin, eyðilagt 2. áfanga rammaáætlunar og allt sé upp í loft. Fólk hlýtur að sjá, ef það bara les allar þær umsagnir sem borist hafa um þetta mikla verk, að það stenst ekki skoðun. Jú, ýmsir þeir sem vilja virkja meira eru ekki alls kostar sáttir, jafnvel mjög ósáttir. Ýmsir þeir sem vilja setja meira í vernd eru ekki sáttir, ekki alls kostar sáttir, jafnvel mjög ósáttir. En þessi niðurstaða byggir á því mikla ferli sem unnið hefur verið og á að vinnast áfram og hún byggir líka á þeim lögum sem Alþingi sjálft hefur sett þar sem skipað var fyrir um að þetta ætti að fara í opið samráðs- og umsagnarferli og því hefur verið hlítt.

Frú forseti. Það eru um það bil 7–8 megavött á ári sem þarf til að sinna raforkuframleiðslu til almennrar notkunar. Hvað skyldu vera mörg megavött í orkunýtingarflokki? Skyldi það vera tíu sinnum það eða 20 sinnum það eða 30 sinnum það eða 40 sinnum eða 50 sinnum eða 60 sinnum eða 70 sinnum eða 80 sinnum eða 90 sinnum eða 100 sinnum eða 110 sinnum eða 120 sinnum? Eða skyldi það kannski vera rúmlega 130 sinnum það? Ein og hálf Kárahnjúkavirkjun? Samt segir fólk: Heyrðu, hér er búið að riðla öllu, hér er bara stóriðjustopp í þágu náttúruverndar. Nei, því miður er það þannig að jafnvel þótt við sem viljum setja náttúruvernd í öndvegi sjáum að þessi 2. áfangi rammaáætlunar er ekki á forsendum náttúruverndar, er enn þá, rétt eins og 1. áfangi, allt of mikið á forsendum orkunýtingar þótt það hafi tekið framförum í rétta átt, þá viljum við samt standa við þetta vegna þess að við vitum líka hve hörð baráttan er og hvernig við þurfum áfram, þvert á flokka, en ekki bara þvert á flokka heldur úti í samfélaginu öllu, að vinna að sáttum, vinna að því að þessi mál verði farsælli til framtíðar en þau hafa verið á liðnum árum og áratugum.

Ég vil samt líka segja að þessi umræða og sérstaklega framan af hefur að ýmsu leyti verið ágæt. Ég er nefnilega ekki ein af þeim sem segja að sjálfstæðismenn séu bara stóriðjusinnar eða að framsóknarmenn vilji bara spilla náttúrunni. Ég held að sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum þyki líka mjög vænt um landið sitt og vilji líka passa upp á náttúruna og sérstaklega kannski kjósendur þessara flokka. Skoðanakannanir sem komu jafnvel eftir hrun sýndu að kjósendur þessara flokka vildu auknar umhverfisáherslur. Skoðanakönnun meðal landsmanna var gerð 2011 um miðhálendisþjóðgarð. Hver var niðurstaðan? Meiri hluta kjósenda allra flokka leist vel á þá hugmynd. Aðeins 18% voru andvíg, 56% hlynnt. Þetta eru skilaboð til allra flokka á Alþingi.

Þess vegna segi ég: Vöndum okkur þegar við ræðum þessi mál, reynum að tala okkur í átt til sátta, frekar saman en sundur. Já, ég skil það að ýmsir séu ósáttir. Mér finnst það skiljanlegt, rétt eins og ég sjálf er ósátt. Mér finnst hörmulegt og mér finnst það svo rangt að þessi dýrmætu svæði, svo að ég nefni þau aftur, fyrir utan ýmis önnur svæði sem ég ætla ekki að nefna en gæti nefnt og haldið hér um langa tölu, á Reykjanesfólkvanginum okkar séu í nýtingarflokki. Fólk skal ekki voga sér að tala þannig að við séum öll svo sátt. En ég skil hina líka, ég skil það sjónarmið. En leyfum okkur ekki að tala eins og hér hafi öllu verið hleypt upp — þegar hvað var gert? Jú, það var ekki gert að öll þessi svæði sem mér finnst að eigi að taka okkur hálfa sekúndu að vita að eigi heima í vernd. Þau voru ekki sett í vernd af virðingu við það ferli sem hér er í gangi. Það á að koma í ljós með tímanum, það á að halda áfram í þessari faglegu vinnu. Nei, það voru sex svokallaðir virkjunarkostir settir í biðflokk, það hlýtur fólk að sjá að er mun hófsamlegri aðgerð en að taka flokk og setja annaðhvort í vernd eða nýtingu. Þær eru settar í bið — sem þýðir hvað? Að það eigi að rannsaka betur, fara betur yfir um stutt skeið til að betri og upplýstari ákvörðun liggi fyrir.

Frú forseti. Óvissan er verst fyrir fjárfesta og atvinnulífið í landinu. Ég er að falla hér á tíma, og ekki í fyrsta sinn, en vil koma að einu atriði sem mér finnst mjög mikilvægt fyrir alla þingmenn að hafa í huga í framhaldi málsins og þá meina ég til langrar framtíðar því að, eins og þingheimur veit, verð ég því miður ekki hér um langt skeið enn til að tala yfir hausamótunum á samstarfsfélögum mínum. En það er sú hugmynd að opna eigi biðflokkinn miklu meira, gera hann að einhvers konar nýtingarbiðflokki, og þá vil ég bara, sérstaklega hvað varðar jarðhitasvæði, vara fólk við, að við vitum hvað við erum að gera þegar við erum að segja þetta.

Við erum að gera að minnsta kosti tvennt, við erum að raska jarðhitasvæðunum mjög alvarlega. Þeistareykir eru mjög gott dæmi, ég hvet alla til að fara þangað. Það er allt í þágu rannsókna, það verður ekki tekið til baka. Í annan stað erum við líka í reynd að auka þrýstinginn. Ég er ekkert ónæm fyrir því, að sjálfsögðu ekki, þegar fjárfestar koma og segja: Heyrðu, við erum búin að leggja svona og svona mikinn pening í þetta. Af hverju megum við þá ekki halda áfram, er þá bara allt fyrir bí? Það er enginn ónæmur fyrir slíku. Ég finn til með fólki, en það er ekki það sem á að skera úr um ákvörðunina heldur eigum við fyrst að segja — það er betra fyrir alla að vita að hverju þeir ganga. Ef við ætlum að vernda Skjálfandafljót gefum við það út og þá þarf enginn að eyða tíma eða orku eða fjármunum í að huga um það. Þeir sem nýta sér biðflokk til að henda í það peningum að „rannsaka“, bora hér og bora þar — þrýstingurinn verður allur sá að það endi í nýtingarflokki vegna þess að þá er fólk búið að fjárfesta, búið að setja þetta allt saman í og búið að raska svæðinu og þá er sagt: Heyrðu, þetta er hvort eð er orðið raskað svæði.

Ég segi við fólk í öllum flokkum — og ég endurtek það að ég er ekki ein af þeim sem segja að sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn vilji landinu sínu illt, sannarlega ekki. Ég veit að svo er ekki, og það á síst við um kjósendur þessara flokka, eins og ég segi. En tölum okkur örlítið saman en ekki bara í sundur eins og (Forseti hringir.) hér hefur á svo margan hátt verið gert. Ég skil og virði svekkelsi fólks er ég líka svekkt, eins og ég hef komið hér inn á, en það er samt rétt að halda þessari vinnu áfram.