141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:56]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég vil fyrst taka fram að ég held að margt hafi verið gríðarlega vel gert í 2. áfanga rammaáætlunar, að fólk hafi lagt mjög mikið á sig og unnið mikla vinnu við satt best að segja engar kjöraðstæður og undir tímapressu. Ég er ekki sammála því sem sumir hafa sagt, að þetta sé bara ónýtt. Margt þarna er gott. Hins vegar er alveg á hreinu að mjög margt þarf að þróa áfram, mjög margt þarf að bæta, mjög margt þegar kemur að því að meta land- og náttúrugæði og annað og líka hagsmuni annarra, líka fjárhagslega hagsmuni annarra sem vilja nýta svæðið í annað en orkunýtingu. Það vantar mjög.

Þar erum við of stutt komin og ég er alveg sammála því, ég hef alltaf sagt að hluti af grunnupplegginu til að byrja með var einmitt að biðflokkur yrði mjög stór til að halda vinnunni áfram til langs tíma. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir, sem sat í verkefnisstjórninni, hefur einmitt staðfest þetta. Það hefur alltaf verið mín nálgun.