141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir framgöngu hennar í þessu máli öllu saman, sem er til mikillar fyrirmyndar. Við vitum að hún er ákafur náttúruverndarsinni og hún nálgast þetta mjög málefnalega. Í grunninn er ég henni hjartanlega sammála, það skiptir okkur mjög miklu máli að kortleggja til allrar framtíðar hvað við teljum henta til nýtingar og hvað til verndunar. Það er því sorglegt ef þetta mikla og mikilvæga mál brennur hér upp á átakabáli í stað þess að verða farvegur fyrir mun breiðari sátt í virkjunar- og nýtingarmálum og verndunarmálum sem ég held að verði til allrar framtíðar þegar við erum komin í gegnum þessa umræðu.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hverju við þurfum að breyta í aðferðafræðinni í þessu ferli til að það verði ekki svona mikil átök um rammaáætlun eftir flokkspólitískum línum til framtíðar og við getum skapað ferli sem leiðir til frekari sátta eins og við höfum til dæmis séð gerast í Noregi.